Það er óhætt að segja að íslenska landsliðið í handknattleik karla fari lemstrað til London á Ólympíuleikana. Snorri Steinn Guðjónsson, Aron Pálmarsson og Ólafur Bjarki Ragnarsson voru ekki með liðinu í síðasta vináttulandsleiknum fyrir leikana sem fram fór í gær. Ísland vann þá Argentínu öðru sinni á þremur dögum.
Lokatölur í gær voru 29:22 en þessi leikur var betri af hálfu Íslands en sá fyrri á laugardaginn. Ísland mætir Argentínu í fyrsta leik í riðlinum á sunnudaginn. Ef ekkert stórkostlegt gerist á Ísland að eiga góða möguleika á að vinna Argentínu. Þeir eru þó sýnd veiði en ekki gefin. Leikmenn liðsins eru léttir á fæti, hreyfanlegir og kunna alveg að kasta bolta. Þá var einn af sterkari mönnum liðsins ekki með í gær en það sama má reyndar segja um Ísland.
Nánar er fjallað um leikinn og landsliðið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.