Sterkari nýliðar en ÍR hafa sjaldan mætt til leiks í efstu deild í handbolta. Breiðhyltingarnir, sem leika nú aftur á meðal þeirra bestu í fyrsta skipti í fimm ár, hafa sótt gamlar hetjur heim í Austurbergið og eru til alls líklegir.
Það er spennandi vetur framundan hjá ÍR en liðið hefur fengið heim menn á borð við Ingimund Ingimundarson, Sturlu Ásgeirsson, Sigurjón Björnsson, Jón Heiðar Gunnarsson og Björgvin Hólmgeirsson. Aðeins ÍR og Haukar hafa styrkt sig svo mikið fyrir komandi átök.
Til marks um gæði ÍR varð það Reykjavíkurmeistari á dögunum þar sem liðið vann alla fimm leiki sína á mótinu.
Sturlu Ásgeirssyni, hornamanninum knáa sem er kominn aftur heim í ÍR úr Val, leist ekkert á hvernig blaðamaður talaði um gæði nýliðanna og hið feikisterka byrjunarlið sem Breiðhyltingarnir munu bjóða uppá í vetur.
„Það eru eflaust einhverjir sem ætlast til að við förum í titilbaráttu í vetur en við ætlum bara að spila okkur saman sem lið og sjá hvert það fleytir okkur,“ segir Sturla af stóískri ró og fullur af reynslu.
Sjá viðtal við Sturlu í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.