Handknattleiksmaðurinn Logi Geirsson, sem lagði skóna á hilluna í fyrra vegna þrálátra meiðsla á öxl, æfir með uppeldisfélagi sínu FH og stefnir á endurkomu í N1-deildina í vetur.
Þetta kemur fram á handbolti.org en þar segir að Logi hafi verið á æfingu með FH í gærkvöldi en ekki gefið kost á viðtali eftir hana.
Fram kemur að Logi hafi æft reglulega með FH undanfarið og samkvæmt heimildum síðunnar hafi hann farið til London í sumar að hitta lækni sem sérhæfir sig í axlarmeiðslum.
Logi er fyrrverandi atvinnumaður en hann lék með Lemgo í Þýskalandi í sex ár. Þá var hann fastamaður í íslenska landsliðinu og vann bæði silfur á Ólympíuleikunum 2008 og brons á EM í Austurríki 2010 þótt hann kæmi lítið við sögu þar.
Logi sendi frá sér yfirlýsingu í ágúst í fyrra þar sem hann sagðist vera hættur í handbolta vegna þrálátra meiðsla.