Stelpurnar okkar í íslenska kvennalandsliðinu í handbolta steinlágu gegn Svartfjallalandi, 26:16, í fyrsta leiknum á EM í Serbíu en munurinn í hálfleik var þrjú mörk, 10:7.
Íslensku stelpurnar héldu í við Svartfjallaland til að byrja með en þær spiluðu ágætan varnarleik og þá átti Guðný Jenný Ásmundsdóttir stórleik í markinu.
Sóknarleikurinn var aftur á móti ekki nægilega góður og vantaði að nýta þau tækifæri sem opnuðust, sérstaklega línuspilið.
Svartfellingar skoruðu fjögur fyrstu mörk síðari hálfleiks og komust í 15:7 áður en Rakel Dögg Bragadóttir skoraði fyrsta mark Íslands eftir rúmlega átta mínútna leik, 15:8.
Svartfjallaland fékk mörg auðveld mörk úr hraðaupphlaupum þar sem sóknarleikur Íslands gekk svo illa og markvörður liðsins, Marina Vukcevic, varði hvert skotið á fætur öðru.
Þegar tíu mínútur voru eftir var munurinn orðinn átta mörk, 21:13, og mestur varð hann ellefu mörk, 25:14. Tíu marka tap var staðreyndin á endanum, 26:16.
Varnarleikur Íslands var ágætur í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik en þá skoruðu Svartfellingar bara tíu mörk. Sóknarleikurinn varð Íslandi að falli í dag og verður að skerpa verulega á honum fyrir morgundaginn.
Rakel Dögg Bragadóttir byrjaði á bekknum en kom sterk inn og skoraði fimm mörk auk þess sem innkoma hennar styrkti varnarleikinn. Skytturnar áttu í mesta basli með að skjóta fyrir utan en Stella, Rut og Hildur skoruðu samtals fjögur mörk úr 18 skotum.
Guðný Jenný Ásmundsdóttir bar af í íslenska liðinu en hún varði 19 skot, mörg hver úr dauðafærum, og þar af eitt víti.
Mörk Íslands: Rakel Dögg Bragadóttir 5, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Arna Sif Pálsdóttir 2, Rut Jónsdóttir 2, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 1, Hildur Þorgeirsdóttir 1, Karen Knútsdóttir 1, Stella Sigurðardóttir 1.
Varin skot: Guðný Jenný Ásmundsdóttir 19/1.
Lið Íslands: 1 Guðný Jenný Ásmundsdóttir, 30 Dröfn Haraldsdóttir -- 2 Karen Knútsdóttir, 3 Arna Sif Pálsdóttir, 4 Þórey Rósa Stefánsdóttir, 5 Rut Jónsdóttir, 7 Rakel Dögg Bragadaóttir, 8 Stella Sigurðardóttir, 9 Dagný Skúladóttir, 13 Ásta Birna Gunnarsdóttir, 14 Hrafnhildur Skúladóttir, 15 Hanna G. Stefánsdóttir, 17 Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, 20 Jóna Margrét Ragnarsdóttir, 21 Hildur Þorgeirsdóttir, 22 Ramune Pekarskyte.
Lið Svartfjallalands: 1 Marina Vukcevic, 12 Sonja Barjaktarovic -- 2 Radmila Miljanic, 3 Biljana Pavicevic, 4 Jovanka Radicevic, 5 Ana Dokic, 8 Marija Jovanovic, 10 Andjela Bulatovic, 15 Andrea Klikovac, 19 Sara Vukcevic, 20 Jasna Toskovic, 25 Sandra Nikcevic, 26 Suzana Lazovic, 32 Katarina Bulatovic, 77 Majda Mehmedovic, 90 Milena Knezevic.