Stelpurnar okkar í íslenska landsliðinu í handbolta hafa lokið keppni á EM 2012 en þær töpuðu fyrir Rússlandi, 30:21, í dag. Ísland tapaði öllum þremur leikjum sínum í riðlakeppninni og vermir botnsæti D-riðils án stiga.
Fyrri hálfleikurinn í dag var mjög slakur, sérstaklega varnarlega, og var ekki að sjá að stelpurnar þyrftu sigur til að komast í milliriðla. Það vantaði alla ákefð í liðið og voru stelpurnar lentar undir, 4:0, eftir sjö mínútna leik.
Sóknarleikurinn var jafnþunglamalegur og erfiður og hann hefur verið allt mótið. Í fyrri hálfleik skoraði Ísland aðeins þrjú mörk úr uppstilltum sóknarleik. Annað kom úr vítaköstum og þá vantaði auðveldu mörkin úr hraðaupphlaupum. Það hefur verið saga mótsins.
Munurinn í hálfleik var sjö mörk, 15:8, og eftir tíu mínútur í seinni hálfleik var munurinn orðinn tíu mörk, 22:12. Rússar nýttu tækifæri sín til hraðaupphlaupa vel en stöðvuðu nær öll íslensk hraðaupphlaup í fæðingu með skynsamlegum brotum og voru fljótar til baka.
Stelpurnar okkar gerðu heiðarlega tilraun til að minnka muninn undir lokin en hann var orðinn tólf mörk, 30:18, þegar fimm mínútur voru eftir. Þá tók rússneski þjálfarinn leikhlé af einhverjum furðulegum ástæðum. Það kveikti aðeins í íslenska liðinu sem skoraði þrjú mörk í röð og breytti stöðunni í 30:21 sem urðu lokatölur leiksins.
Rússar voru einfaldlega allt of sterkir fyrir íslensku stelpurnar í dag sem gerðu sér þó enga greiða með slökum varnarleik og enn verri sóknarleik sem hefur verið slakur allt mótið. Þátttöku Íslands á EM 2012 er lokið.
Mörk Íslands: Rut Jónsdóttir 4, Rakel Dögg Bragadóttir 3/3, Karen Knútsdóttir 3, Hrafnhildur Skúladóttir 3, Arna Sif Pálsdóttir 2, Þórey Rósa Stefánsdóttir 2, Dagný Skúladóttir 1, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 1, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 1, Ásta Birna Gunnarsdóttir 1.
Varin skot: Guðný Jenný Ásmundsdóttir 14/3 (þar af 4 aftur til mótherja), Dröfn Haraldsdóttir 2/1 (þar af 2 aftur til mótherja).
Lið Íslands: 1 Guðný Jenný Ásmundsdóttir, 30 Dröfn Haraldsdóttir -- 2 Karen Knútsdóttir, 3 Arna Sif Pálsdóttir, 4 Þórey Rósa Stefánsdóttir, 5 Rut Jónsdóttir, 7 Rakel Dögg Bragadaóttir, 8 Stella Sigurðardóttir, 9 Dagný Skúladóttir, 13 Ásta Birna Gunnarsdóttir, 14 Hrafnhildur Skúladóttir, 15 Hanna G. Stefánsdóttir, 17 Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, 20 Jóna Margrét Ragnarsdóttir, 21 Hildur Þorgeirsdóttir, 22 Ramune Pekarskyte.
Lið Rússlands: 12 Maria Basarab, 16 Maria Sidorova -- 2 Polina Kuznetcova, 3 Tatiana Khmirova, 5 Liudmila Postnova, 8 Anna Sen, 10 Alexandra Stepanova, 11 Ksenia Milova, 15 Marina Jartseva, 17 Ekaterina Andriushina, 19 Ksenia Makeeva, 23 Anna Punko, 25 Emiliia Turei, 28 Victoria Zhilinskaite, 29 Olga Tsjernoivanenko, 33 Ekaterina Ilina.