Allt klárt fyrir undanúrslitin á EM

Þórir Hergeirsson þjálfari Norðmanna.
Þórir Hergeirsson þjálfari Norðmanna. mbl.is/afp

Undanúrslitaleikirnir á Evrópumóti kvenna í handbolta fara fram í dag en þeir leikir sem eftir á að spila verða allir leiknir í Kombank Arena í Belgrad.

Veislan hefst klukkan 11.00 þegar Danmörk mætir Rússlandi í leiknum um fimmta sætið en alvaran tekur svo við klukkan 13.30.

Þá mæta heims, Evrópu- og Ólympíumeistarar Noregs til leiks en norsku stelpurnar undir stjórn Selfyssingsins Þóris Hergeirssonar eru ósigraðar á móti og hafa unnið alla fimm leiki sína til þessa.

Norska liðið er vægast sagt líklegt til að verja titil sinn en fyrst þarf það að vinna Ungverjana sem hafa spilað vel hingað til.

Heimakonur frá Serbíu mæta svo nágrönnum sínum frá Svartfjallalandi í stórleik morgundagsins klukkan 16.00. Búast má við hörkuleik og fjöri á pöllunum enda ekki nema sex ár síðan Svartfellingar lýstu yfir sjálfstæði og hættu að keppa undir fána Serbíu og Svartfjallalands. Liðin sem tapa í undanúrslitaleikjunum á morgun mætast í leiknum um bronsið klukkan 13.30 á sunnudaginn í Belgrad en leikurinn um gullverðlaunin og Evrópumeistaratitilinn fer fram klukkan 16.00 á sunnudaginn.

Þórir Hergeirsson vonast til að stýra liðinu til síns fjórða risatitils en síðan hann tók við Noregi í Apríl 2009 hefur það unnið EM 2010, HM 2011, og gullverðlaun á Ólympíuleikunum í sumar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert