„Valið kom mér á óvart og það er gríðarlega ánægjulegt,“ sagði Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður fjórfaldra meistara Kiel, eftir að hann var í kvöld kjörinn íþróttamaður ársins 2012 af Samtökum íþróttafréttamanna.
Aron hlaut 425 stig af 460 mögulegum í kjörinu sem 23 félagar í Samtökum íþróttfréttamanna tóku þátt í.
„Það er mikill heiður að vera á meðal tíu efstu í kjörinu hverju sinni og að vera efstur þeirra er gríðarlega ánægjulegt,“ sagði Aron sem átti afar góðu gengi að fagna með Kiel og íslenska landsliðinu en hann var m.a. valinn í úrvalslið Ólympíuleikanna í sumar.
„Ég á nóg eftir sem íþróttamaður, því get ég lofað enda ekki nema 22 ára gamall. Yfirstandandi ár er mitt besta á ferlinum. Ábyrgð mín hefur aukist jafnt hjá Kiel og landsliðinu og það er nokkuð sem ég vil, ég vil bera ábyrgð og vonandi eru þjálfarar mínir að sjá það betur og betur,“ sagði Aron Pálmarsson, nýkjörinn íþróttamaður ársins 2012, m.a. í viðtali á meðfylgjandi myndskeiði sem tekið var að loknu hófinu í Gullhömrum í kvöld.