„Það er gott að brjóta ísinn og stórt skref að vinna Val í þessum leik. Það sýnir okkur að við getum það,“ sagði ánægður þjálfari Fram, Halldór Jóhann Sigfússon, við Morgunblaðið eftir að Fram vann Val, 28:24, í úrslitaleik deildabikarsins í Laugardalshöll í gærkvöldi.
Þar með er Valur ekki lengur handhafi allra titla sem í boði eru og um leið komst Fram yfir þann erfiða en mikilvæga hjalla að vinna loks Val aftur í úrslitaleik
Valur hefur drottnað yfir íslenskum kvennahandbolta undanfarin misseri og var fyrir gærkvöldið handhafi allra titla sem í boði voru. Fram hefur nánast alltaf verið liðið sem þarf að lúta í lægra haldi fyrir Val í úrslitaleikjum og horfa á eftir titlinum á Hlíðarenda. Því er þetta mjög mikilvægur sigur fyrir Fram í sálfræðistríðinu milli þessara tveggja langbestu liða landsins.
„Þetta hefur verið erfiður hjalli að komast yfir og sigurinn því mikilvægur,“ viðurkenndi Halldór Jóhann.
Sjá umfjöllun um leikinn í heild og samtal við Halldór Jóhann í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.