Kári Kristján Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, yfirgefur herbúðir þýska 1. deildar liðsins Wetzlar við lok leiktíðar í vor. Þetta staðfestir Björn Seipp, framkvæmdastjóri félagsins, í frétt á handball-world í dag.
Kári Kristján er nú á sínu þriðja keppnistímabili með Wetzlar. Morgunblaðið greindi frá því á dögunum að hann væri undir smásjá danska úrvalsdeildarliðsins Bjerringbro/Silkeborg.
Wetzlar hefur gert samning við línumanninn Sebastian Weber um að koma í stað Kára Kristjáns í sumar. Weber leikur nú með Hüttenberg. Hann hefur skrifað undir þriggja ára samning við Wetzlar sem situr í níunda sæti þýsku 1. deildarinnar eftir að hafa misst flugið í síðustu leikjum deildarinnar fyrir áramót.