Ólafur Stefánsson, fyrrverandi fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta, var í gær kynntur til sögunnar sem nýr þjálfari uppeldisfélags síns, Vals, en hann tekur við starfinu í sumar þegar Patrekur Jóhannesson kveður eftir eitt ár í starfi. Ólafur gerir tveggja ára samning við Valsmenn og mun auk þess að þjálfa meistaraflokk félagsins koma að þjálfun yngri flokka sem og hjálpa til við að byggja upp enn betra íþróttastarf á Hlíðarenda.
„Þetta er ekki búið að eiga langan aðdraganda,“ sagði kampakátur Ómar Ómarsson, formaður handknattleiksdeildar Vals, við Morgunblaðið á blaðamannafundi að Hlíðarenda í gær.
„Það hafa verið hugmyndir um að fá hann til starfa hjá félaginu en það fór ekkert almennilega af stað fyrr en Patrekur tilkynnti okkur að hann vildi losna undan samningi. Í desember fórum við aðeins að ýja þessu við Ólaf en við fengum ekki staðfestingu frá honum fyrr en á sunnudaginn,“ sagði Ómar sem var eðlilega í skýjunum með að fá þennan besta handboltamann Íslandssögunnar aftur heim.
Sjá nánar ítarlega umfjöllun um heimkomu Ólafs í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.