Fögnuður FH-inga var gríðarlegur þegar flautað var til leiksloka að Ásvöllum í dag og 21:25 sigur á Haukum í bæjarslagnum staðreynd og þeir svart/hvítu eitthvað náð að hefna fyrir slæmt tap í fyrri leik liðanna.
Mikil spenna var í íþróttahúsinu að Ásvöllum fyrir leik Hauka og FH, ekki bara í búningsherbergjum og jafnvel minna þar en á pöllunum. Það tókst svo enn meira á taugarnar þegar leikurinn byrjaði og Haukar hugsa með hryllingi til fyrstu tíu mínútna leikins þegar FH-ingar skoruðu fyrstu 6 mörk leiksins. Það er hins vegar engin tilviljun að Haukar tróna langefstir á toppi deildarinnar og þeir söxuðu forskotið niður í tvö mörk þegar leið á leikinn en nær komust þeir ekki.
Mestu munaði um sinnuleysi Hauka samfara einbeitingu FH í byrjun. Ásbjörn Friðriksson var seigur við að taka af skarið í sókninni og vörnin var grjóthörð, las sóknartilburði Hauka auðveldlega út. Leikurinn jafnaðist þegar á leið en FH-ingar voru greinilega mun betur stilltir inná þennan mikilvæga leik.
Þar með töpuðu Haukar sínum fyrsta leik í deildinni í vetur og það gegn FH en fyrir höfðu þeir aðeins gert eitt jafntefli. Það breytir samt engu með stöðuna í deildinni, Haukar enn langefstir með 25 stig og langbesta markahlutfallið en FH eru í öðru sætinu með 17 stig.
Haukar: Aron Rafn Eðvarsson, Giedreius Morkunas, Tjörvi Þorgeirsson, Adam Baumruk, Freyr Brynjarsson, Brynjólfur Snær Brynjólfsson, Gylfi Gylfason, Árni Steinn Steinþórsson, Sigurbergur Sveinsson, Sveinn Þorgeirsson, Gísli Jón Þórisson, Þórður Rafn Guðmundsson, Jón Þorbjörn Jóhannsson, Matthías Árni Ingimarsson, Gísli Kristjánsson.
FH: Sigurður Örn Arnarsson, Daníel Freyr Andrésson, Sigurður Ágústsson, Ásbjörn Friðriksson, Andri Berg Haraldsson, Einar Rafn Eiðsson, Þorkell Magnússon, Ari Magnús Þorgeirsson, Ísak Rafnsson, Ragnar Jóhannsson, Magnús Óli Magnússon, Atli Rúnar Steinþórsson, Bjarki Jónsson, Arnar Birkir Hálfdánarson.