Danska blaðið Jyllands-Posten fullyrðir að Guðmundur Þórður Guðmundsson verði næsti þjálfari karlalandsliðs Dana í handknattleik og að tilkynnt verði um ráðningu hans á blaðamannafundi á mánudaginn.
Ulrik Wilbek mun hætta þjálfun danska landsliðsins eftir Evrópumótið í Danmörku í janúar en hann hefur stýrt liðinu undanfarin ár. Ólafur Stefánsson og Dagur Sigurðsson voru báðir á óskalista danska handknattleikssambandsins en þeir voru ekki tilbúnir að taka starfið að sér.
Guðmundur er þjálfari Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi og er samningsbundinn félaginu til ársins 2015 en þar áður starfaði Guðmundur í Danmörku þar sem hann þjálfaði GOG. Guðmundur var einnig þjálfari íslenska landsliðsins og náði frábærum árangri með það en undir hans stjórn hrepptu Íslendingar silfurverðlaunin á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og bronsverðlaunin á Evrópumótinu í Austurríki 2010.