Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson er nú með lærimeyjum sínum í norska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í handknattleik þar sem liðið hefur unnið alla þrjá leiki sína. Íslandsför hópsins síðasta sumar virðist því hafa farið vel í mannskapinn.
Þórir ákvað að fara með landsliðið sitt heim til Íslands snemma síðasta sumar þar sem ýmislegt var brallað, og nú sýnir TV2 stutta þætti um Íslandsförina. Þættirnir bera heitið Í ríki Þóris.
Í fyrsta þættinum sjást heims- og ólympíumeistararnir meðal annars þenja raddböndin við náttúruperluna Skógafoss áður en þeir héldu í göngu yfir Fimmvörðuháls. Þegar hópurinn settist niður til að nærast á leið sinni tók Þórir upp poka af harðfiski og gaf leikmönnum sínum að smakka. Ekki kunnu allir gott að meta og mátti sjá suma leikmenn hreinlega hrækja matnum út úr sér við mikla kátínu annarra. Sjón er sögu ríkari en fyrsta þáttinn má sjá með því að smella hér.