Gunnar Steinn Jónsson var valinn í úrvalslið 12. umferðar frönsku 1. deildarinnar í handknattleik sem birt var í dag. Gunnar Steinn fór á kostum þegar lið hans Nantes vann meistaralið Paris Handball, 30:26, á heimavelli í síðustu viku.
Gunnar Steinn skoraði þá sjö mörk úr jafn mörgum skotum auk þess sem hann stýrði leik liðsins af dugnaði og útsjónarsemi. Þá Gunnar Steinn einnig fastur fyrir í vörninni.
Enginn leikmaður úr meistaraliði Paris Handball er í liði umferðarinnar. Gunnar Steinn er eini liðsmaður Nantes sem valinn var í úrvalsliðið. Tveir leikmenn St Raphaël eru í liðinu, en lið Dunkerque, Chambéry, Aix og Tolouse eiga einn mann hvert í liðinu.