Landsliðskonan Rakel Dögg Bragadóttir leikmaður Stjörnunnar hefur ákveðið að leggja handboltaskóna á hilluna vegna þeirra höfuðmeiðsla sem hún varð fyrir á æfingu landsliðsins í nóvember. Rakel greinir frá þessu á Facebooksíðu sinni í dag.
„Á mínum handboltaferli hef ég meiðst eins og flestir aðrir íþróttamenn. Ég hef handleggsbrotnað, ristarbrotnað, rifbeinsbrotnað, farið í uppskurð á báðum fótleggjum, farið í uppskurð á hægri öxl og það stefndi í aðra aðgerð, dottið úr lið á vinstri öxl, glímt við nárameiðsli í 2 ár og svo að sjálfsögðu slitið bæði hægra og vinstra krossband. Vonbrigðin eru auðvitað alltaf mikil við meiðsli en ástríðan og gleðin við að spila handbolta hefur ávallt drifið mig áfram og hef ég alltaf lagt mig alla fram til að koma til baka sterkari og með enn meiri krafti en áður,“ skrifar Rakel Dögg á Facebooksíðu sína.
„Í lok nóvember fékk ég höfuðhögg sem olli heilahristingi. Höfuðhöggið hefur dregið dilk á eftir sér og hefur mér ekki enn tekist að klára stuttan göngutúr án mikilla verkjakasta í kjölfarið. Eftir að hafa hitt þrjá sérfræðilækna í höfuðmeiðslum er ljóst að ég er langt frá því að geta spilað handbolta.
Tímabilið er búið hjá mér og ekki er hægt að segja til um hvenær eða jafnvel hvort ég get spilað aftur. Þær fréttir voru þungar enda hefur handbolti verið stór hluti af mínu lífi frá því ég man eftir mér og þegar eitthvað hamlar mér að geta gert það sem ég elska er erfitt að sætta sig við það. En þegar meiðsli eru farin að ógna heilsunni er kominn tími til að hlusta á líkamann og taka mark á honum. Það er því með trega og tárum í augunum að ég hef ákveðið að leggja handboltaskóna á hilluna.“
Rakel er 27 ára gömul og hefur verið einn besta handknattskona landsliðsins undanfarin ár.