Gunnar Steinn til Gummersbach

Gunnar Steinn Jónsson flytur sig um set í sumar frá …
Gunnar Steinn Jónsson flytur sig um set í sumar frá Nantes í Frakklandi til Gummersbach í Þýskalandi. Eva Björk Ægisdóttir

Gunnar Steinn Jónsson, landsliðsmaður í handknattleik, hefur skrifað undir tveggja ára samning við þýska liðið Gummersbach. Gunnar Steinn gengur til lið við þýska liðið í sumar þegar núverandi samningur hans við Nantes í Frakklandi rennur út.

Gunnar Steinn vakti verðskuldaða athygli með íslenska landsliðinu á Evrópumeistaramótinu í handknattleik í Danmörku í janúar. Hann tók þátt í öllum leikjum íslenska landsliðsins í mótinu. Í framhaldinu vaknaði áhugi liða á krækja í Gunnar Stein sem verið hefur í herbúðum Nantes síðustu nærri tvö ár. Þar áður lék hann með Drott í Svíþjóð um nokkurt skeið en vakti fyrst athygli með HK hér á landi.

Ég vonast eftir að verða í stóru hlutverki í vörn og sókn sem er mikilvægt fyrir metnað minn með landsliðinu,“ sagði Gunnar Steinn í samtali við mbl.is áðan en hann er afar spenntur fyrir væntanlegum vistaskiptum.

Þetta er ekki fyrsta sinn sem Gummersbach sýnir Gunnari Steini áhuga því hann var einnig undir smásjá forráðamanna félagsins áður enn hann gekk til liðs við Nantes fyrir tveimur árum.

Nokkrir Íslendingar hafa leikið með Gummersbach sem er eitt sögufrægasta handknattleikslið Þýskalands. Meðal þeirra má nefna Guðjón Val Sigurðsson, Guðlaug Arnarsson, Sverre Andreas Jakobsson og Róbert Gunnarsson sem var fyrirliði Gummersbach sem varð Evrópumeistari bikarhafa 2010. Alfreð Gíslason  þjálfaði Gummersbach frá 2006 til 2008 þegar hann tók við þjálfun Kiel.

Greint er m.a. frá félagsskiptum Gunnars Stein í frétt á heimasíðu Gummersbach.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka