Haukar geta með réttu kallað sig stóra bróður FH í karlahandboltanum þetta tímabilið en nýkrýndir bikarmeistarar Hauka lögðu erkifjendur sína, 31:25, í viðureign liðanna í Olís-deildinni í handknattleik að Ásvöllum í gækvöld. Þetta var sjötta viðureign Hafnarfjarðarliðanna á öllum mótum á leiktíðinni og Haukarnir hafa haft betur í öll skiptin svo FH-ingar verða að sætta sig við að vera næstbesta lið bæjarins, þennan veturinn í það minnsta.
Það kom ekki að sök fyrir Haukana að í þeirra lið vantaði stórskyttuna Sigurberg Sveinsson sem hefur svo sannarlega reynst FH-ingum erfiður í vetur. Sigurbergur kenndi sér meins í hné og skarð hans fyllti hinn ungi Adam Haukur Baumruk. Hann gerði það einstaklega vel, var áræðinn, átti góð skot og átti góðar stoðsendingar og stráknum kippir svo sannarlega í kynið en karl faðir hans, Petr Baumruk, er goðsögn í liði Haukanna.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.