Konráð: Sætur sigur og flottur vetur

„Þetta var mikill spennuleikur og okkur mjög erfiður. Sérstaklega í síðari hálfleik. Þá fundu menn að mikið var undir. En við náðum að snúa erfiðri stöðu upp í sigur á lokakaflanum og þar skoruðu þriðja flokks menn þrjú síðustu mörkin," sagði Konráð Olavsson, þjálfari Aftureldingar, eftir að liðið vann Selfoss, 25:23, í lokaumferð 1. deildar að Varmá í kvöld. Með sigrinum tryggði Afturelding sér sigur í deildinni og sæti í úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili.

„Við spiluðum okkur í fín færi en okkur gekk illa að nýta þau. En strákarnir höfðu trú á þessu og það skilaði sigri að lokum," sagði Konráð sem var eðlilega glaður með árangurinn en Afturelding hefur aðeins tapað tveimur leikjum í vetur undir hans stjórn, einum í deildinnni og einum í undanúrslitum bikarkeppninnar. 

„Þetta er ungt lið og það tekur sinn tíma hjá mönnum að öðlast reynslu," sagði Konráð en stór hluti Aftureldingarliðið er á aldrinum 17 - 21 árs.

Konráð segist vera feginn að sleppa við umspilið og endurheimta sætið í úrvalsdeildinni sem tapaðist fyrir ári síðan. „Þetta var flottur sigur og gífurlega sætt að vinna leikinn og deildina. Veturinn hefur frábær hjá okkur," sagði Konráð Olavsson, þjálfari Aftureldingar en nánar er rætt við hann á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert