„Síminn hjá mér hefur rauðglóandi í allan dag auk þess sem pantanir hrúgast inn á Facebook og í tölvupósti hjá mér,“ segir Jón Gunnlaugur Viggósson, hjá handknattleiksdeild ÍBV, en hann hefur þegar selt vel á fjórða hundrað manns miða í skipulagða hópferð félagsins á úrslitaleik Hauka og ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik sem fram fer í Hafnarfirði annað kvöld.
Upphaflega var lagt upp með 220 manna hópferð og en miðar í þá ferð ruku út eins og heitar lummur og jafnvel gott betur, að sögn Jóns Gunnlaugs sem segir áhugann meðal Eyjamanna fyrir leiknum vera mjög mikinn. Boðið er upp á rútuferð frá Landeyjarhöfn á leikstað og aftur til baka fljótlega að leik loknum auk aðgöngumiða á kappleikinn sem með Herjólfi frá Eyjum og til baka.
„Nú erum við svo gott sem búnir að selja í sjö fullar rútur og það eru enn að streyma inn pantarnir," sagði Jón Gunnlaugur við mbl.is fyrir nokkrum mínútum síðan.
Spurður hversu mörgum Jón Gunnlaugur gæti selt far með Herjólfi og í rúturnar til og frá Hafnarfirði var svarið stutt og laggott: „Öllum þeim Eyjamönnum sem vilja sjá leikinn."