„Ég er búinn að vinna nokkra titla á ferli mínum en það er alveg á hreinu að þetta er langsætasti og eftirminnilegasti titillinn sem ég hef unnið. Það er mikið búið að ganga á hjá okkur í vetur vegna meiðsla. Ég hef spilað marga leiki nánast á annarri löppinni og fyrir tímabilið misstum við nokkra heimsklassa leikmenn. Hópurinn var frekar þunnskipaður en að okkur skyldi takast að vinna deildina er magnað afrek. Ég hef aldrei fagnað eins mikið inni á vellinum og ég gerði þegar ég vissi að við værum orðnir meistarar,“ sagði Aron Pálmarsson, leikstjórnandi Kiel, við Morgunblaðið en Kiel fagnaði á laugardaginn sínum 19. meistaratitli í Þýskalandi.
„Maður er ennþá í skýjunum og að melta þetta. Ég er vanur því yfirhöfuð að verða meistari. Ég hef upplifað að vera meistari í apríl eða að þurfa bara að vinna síðasta leikinn til að hampa titlinum. Þegar leikklukkan söng í lokin þá leit maður bara á bekkinn og spurði: Erum við meistarar eða ekki? Við vissum í hálfleik að við værum búnir að ná Löwen og þegar tíu mínútur voru eftir sagði Alfreð við mig: Þeir eru einu marki á undan okkur: Ég hugsaði á þessum tímapunkti. Hvað viltu að ég geri meira? Það var ekki eins og við værum búnir að spara okkur fyrstu 50 mínúturnar í leiknum. Ég hugsaði bara: Jæja allt í lagi. Við höldum því bara áfram,“ sagði Aron.“
Nánar er rætt við Aron í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.