Ingimundur Ingimundarson og Hreiðar Levy Guðmundsson munu leika með liði Akureyrar Handboltafélags á næstu leiktíð, en þetta var endanlega staðfest seint í kvöld.
Ingimundur kemur frá ÍR, en hann hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu undanfarin ár og sneri heim úr atvinnumennsku fyrir þremur árum. Hann batt vörnina saman í silfurliði Íslands á Ólympíuleikunum í Peking ásamt Sverre Jakobssyni sem nú er annar þjálfari Akureyrar.
Markvörðurinn Hreiðar Levy var sömuleiðis í silfurliðinu í Peking en hann kemur frá Nötteröy í Noregi. Áður hefur hann leikið í Svíþjóð og í Þýskalandi. Hann lék með liði Akureyrar áður en hann hélt út í atvinnumennsku.
Rætt er við Heimi Örn Árnason, annan þjálfara Akureyrar, í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.