Einhvern veginn lítur maður á íslenska karlalandsliðið í handbolta sem hluta af fjölskyldunni. Eða það er hægt að líkja landsliðinu við það. Maður upplifir í það minnsta bæði gleði og sorg með Strákunum okkar eins og maður gerir almennt í lífinu.
Ég hef notið þeirra forréttinda að verða vitni að því að Ísland vinni Frakkland í ótrúlegum leikjum, bæði á HM 2007 og á Ólympíuleikunum í London. En að sama skapi hefur maður verið gráti næst eftir tapið gegn Ungverjum á síðustu Ólympíuleikum eða upplifað pirring eins og eftir tapið gegn Slóveníu á EM 2012.
Í gær bættust svo við vonbrigðin við það að vera viðstaddur leik Íslands og Bosníu sem lauk með jafntefli, 29:29 í Laugardalshöll. Vonbrigði íslensku landsliðsmannanna í leikslok voru algjör, enda þýddu úrslitin að Ísland verður ekki með á HM í Katar í janúar á næsta ári.
Sjá nánar umfjöllun um leikinn í 12 síðna íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.