Tandri Már til Stokkhólms

Tandri Már Konráðsson leikur sænsku úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili.
Tandri Már Konráðsson leikur sænsku úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili. mbl.is/Árni Sæberg

Handknattleiksmaðurinn Tandri Már Konráðsson skrifaði í dag undir tveggja ára samning við sænska úrvalsdeildarliðið Ricoh. Liðið er nýliði í sænsku úrvalsdeildinni en þjálfari þess er Ingemar Linnél sem þjálfaði sænska karlalandsliðið um árabil og var m.a. eftirmaður hins goðsagnakennda Bergt Johansson.

Tandri Már lék með danska B-deildarliðinu TM Tönder á síðasta keppnistímabili. Ricoh er með bækistöðvar í Stokkhólmi og flytur Tandri Már til höfuðborgar Svíþjóðar í sumar ásamt sambýliskonu sinni og landsliðskonu í handknattleik, Stellu Sigurðardóttur.

„Þetta er alveg hrikalega spennandi lið," sagði Tandri Már við mbl.is en hann hefur um nokkurt skeið legið undir feldi og velt framtíðinni fyrir sér eftir að hafa afþakkað nýjan samning við TM Tönder snemma á árinu.

Tandri Már, sem varð m.a. Íslandsmeistari með HK fyrir tveimur árum, æfði með íslenska landsliðinu í lok maí og í byrjun júní og lék sinn fyrsta landsleik gegn Portúgal í byrjun þessa mánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert