„Enginn vafi leikur á að baki þessarar ákvörðunar liggur pólitík, valdabarátta og peningar," segir Norðmaðurinn Frode Scheie, fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik og handboltasérfræðingur norsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 um þá ákvörðun Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, að veita Þýskalandi sérstakt keppnisleyfi á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla á næsta ári og afturkalla keppnisleyfi Ástralíu á mótinu.
Um leið sniðgekk IHF eigin reglur um að varaþjóð á HM skuli koma frá álfu heimsmeistaranna og hundsaði tillögur Handknattleikssambands Evrópu, EHF, um varaþjóðir en Ísland var efst á þeim lista.
Fjallað er málið á vef TV2 í Noregi í dag og m.a. birt bréf frá EHF til IHF þar sem skýrt kemur fram að Ísland er fyrsta varaþjóð.
„Reglurnar eiga að vera skýrar og svo allir viti að hverju þeir ganga áður en undankeppni hefst. Að þessu sinni hefur reglum verið breytt eftir á til þess að kippa Þjóðverjum með," segir Scheie sem er ekki vafa um að ákvörðun IHF snúist meira um peninga en handboltaíþróttina.
Með fréttinni á TV2 fylgir afrit af bréfi EHF til IHF 16. júní þar sem tilkynnt er hvaða þjóðir hafi öðlast keppnisrétt á HM í gegnum undankeppni í Evrópu og hvaða þrjár þjóðir eru til vara af hálfu EHF. Í framhaldinu spinnast umræður um bréfið og fréttina á samskiptavefnum Twitter þar sem ákvörðun IHF hefur lítinn hljómgrunn.
EHF nevner reservenasjoner spesifikt.Drøye beslutninger IHF har gjort... @merhandbal @TV2SportenStig @moberget pic.twitter.com/3BOWe8tS35
— Espen Karlsen (@EspenKar) July 11, 2014