Dagur Sigurðsson hefur verið ráðinn þjálfari þýska landsliðsins í handknattleik en tilkynnt var um ráðningu hans nú rétt í þessu.
Dagur tekur við þjálfarastarfinu af Martin Heuberger og gildir samningur hans til ársins 2017 með möguleika á framlengingu til ársins 2020 en samningur Dags tekur gildi þann 1. september.
Dagur, sem er 41 árs gamall, hefur stýrt liði Füchse Berlin með frábærum árangri en hann mun láta af störfum hjá Berlínarliðinu í júní á næsta ári.
Dagur hefur verið við stjórnvölinn hjá Füchse Berlín frá árinu 2009 og undir hans stjórn unnu Berlínarrefirnir þýsku bikarkeppnina eftir nauman eins marks sigur á Flensburg, en Flensburg átti svo eftir að vinna Meistaradeild Evrópu síðar um vorið.
Áður var Dagur landsliðsþjálfari Austurríkis frá 2008 til 2010 og stýrði austurríska félaginu Bregenz á árunum 2003 til 2007.