Tíu Íslendingar í sama leiknum

Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði 4 mörk fyrir Emsdetten gegn Aue.
Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði 4 mörk fyrir Emsdetten gegn Aue. mbl.is/Ómar

Sennilega hefur verið sett nokkurs konar Íslandsmet í gærkvöld þegar tíu Íslendingar komu við sögu í einum og sama leiknum í þýsku B-deildinni í handknattleik.

Emsdetten vann þá sigur á Aue, 30:23, en fjórir Íslendingar eru í röðum Emsdetten og sex hjá Aue. 

Ólafur Bjarki Ragnarsson og Ernir Hrafn Arnarson skoruðu 4 mörk hvor fyrir Emsdetten, Oddur Gretarsson 2 og Anton Rúnarsson 1. Emsdetten er í 11. sæti af 20 liðum í deildinni með 23 stig eftir 24 leiki.

Hörður Fannar Sigþórsson og Sigtryggur Rúnarsson gerðu 2 mörk hvor fyrir Aue en Árni Sigtryggsson og Bjarki Már Gunnarsson náðu ekki að skora, og ekki heldur Sveinbjörn Pétursson markvörður. Rúnar Sigtryggsson þjálfar lið Aue sem er í 10. sæti með 26 stig eftir 24 leiki.

Í sömu deild skoraði Bjarki Már Elísson 7 mörk fyrir Eisenach sem vann Rimpar, 27:25, en Hannes Jón Jónsson lék ekki með Eisenach. Lið þeirra er í 6. sæti með 32 stig en sigurinn var afar dýrmætur því Rimpar er í 3. sætinu með 37 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert