Mesta gjaldþrot sem ég hef tekið þátt í

Andri Berg Haraldsson undirbýr skot í leiknum við Hauka í …
Andri Berg Haraldsson undirbýr skot í leiknum við Hauka í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var mesta gjaldþrot sem ég hef tekið þátt í. Ég biðst bara afsökunar. Þetta er ófyrirgefanlegt, sérstaklega á móti Haukum,“ sagði Andri Berg Haraldsson, leikmaður FH, ómyrkur í máli eftir tapið stóra gegn Haukum í Kaplakrika í kvöld í Olís-deildinni, 33:20.

Haukar komust í 12:1 og 15:2 og eftir það var aldrei spurning hvernig leikurinn færi.

„Við köstuðum þessu frá okkur trekk í trekk, gerðum ekkert rétt og leikurinn var bara búinn eftir korter. Þeir voru alla vega mikið betur tilbúnir en við nokkurn tímann. Við réttum þeim litla putta og þeir rifu höndina af. Við bara buðum upp á þetta,“ sagði Andri sem hafði engan áhuga á að skýla sér á bakvið það að þeir Ísak Rafnsson og Benedikt Reynir Kristinsson hefðu ekki getað spilað vegna meiðsla.

„Það er enginn að pæla í því. Það eru bara lúserar sem gera slíkt. Við mættum bara með hausinn einhvers staðar úti í rassgati. Þetta var algjör niðurlæging,“ sagði Andri. FH heldur þó enn 4. sæti deildarinnar og er stigi fyrir ofan Hauka.

„Við þurfum að bæta okkur allsvakalega ef við ætlum ekki að fara að dragast frekar aftur úr,“ sagði Andri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert