Gunnar Gunnarsson er hættur þjálfun meistaraflokks karla hjá Selfossi eftir að hafa stýrt liðinu undanfarin tvö ár. Þetta staðfesti Lúðvík Magnús Ólason formaður handknattleiksdeildar Selfyssinga við mbl.is í dag.
Gunnar er reynslumikill þjálfari og þjálfaði meðal annars áður Fjölni og Þrótt hér á landi en hann kom ungu liði Selfyssinga í undanúrslit umspils um sæti í Olís-deildinni þar sem liðið féll úr leik gegn Fjölni í oddaleik.
Lúðvík staðfesti einnig að Þórir Ólafsson muni ekki taka við liðinu en segir Selfyssinga koma til með að leita að þjálfara sem verði búsettur á Selfossi.