Stjarnan jafnaði metin

Stjörnukonan Sólveig Lára Kjærnested með boltann og Eva Björk Davíðsdóttir, …
Stjörnukonan Sólveig Lára Kjærnested með boltann og Eva Björk Davíðsdóttir, Gróttu, til varnar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Stjarnan jafnaði metin í rimmunni við Gróttu um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna með því að vinna, 23:19, á heimavelli í TM-höllinni í Garðabæ í kvöld. Stjarnan var með yfirhöndina nær allan leikinn og hafði sex marka forskot í hálfleik, 15:9. Næsti leikur liðanna verður á heimavelli Gróttu á sunnudaginn klukkan 16. Hvort lið hefur nú einn vinning en vinna þarf þrjá leiki til þess að verða Íslandsmeistari.

Grótta byrjaði leikinn af sama krafti og liðið lauk þeim síðasta. Grótta komst fljótlega í 3:1, og virist ætla að taka völdin. Sú varð ekki raunin. Stjörnunliðið jafnaði metin, 4:4, og sigldi síðan hægt og bítandi framúr. Sóknarleikur Stjörnunnar hresstist verulega upp úr miðjum hálfleiknum þegar Guðrún Erla Bjarnadóttir leysti Helenu Örvarsdóttur af. Guðrún skoraði fjögur mörk á skömmum tíma og  náði að draga til vörn Gróttu og opna fyrir Helenu og Sólveigu það sem eftir lifði hálfleiksins.

Vörn Gróttu byrjaði ágætlega en síðan dró smátt og smátt í varnarmættinum og samspil varnarinnar og Írisar Bjarkar Símonardóttur, markvarðar, varð ekki jafn taktfast og áður. Hinsvegar var það sóknarleikurinn sem bilaði hjá Gróttu í fyrri hálfleik. Ekki vantaði að liðið lék sig í mörg marktækifæri en flest skot leikmanna strönduðu annað hvort á Florentinu Stanciu, markverði, eða markstöngunum. Léleg nýting í opnum færum var fyrst og síðast valdur þess að í hálfleik munaði sex mörkum á liðunum í hálfleik, 15:9, Stjörnunni í vil.

Gróttuliðið gerði atlögu að Stjörnunni strax í upphafi síðari hálfleik og gekk all vel. Vörn Gróttu þettist mjög og Stjarnan skoraði ekki sitt fyrsta mark í hálfleiknum fyrr en eftir átta mínútur og það úr vítaksti. Hinsvegar vildi sóknarleikurinn áfram bila hjá Gróttu, einkum nýting úr opnum færum.

Um miðjan síðari hálfleik var munurinn kominn í þrjú mörk, 18:15, þegar Evu Björk Davíðsdóttur brást bogalstinn í vítaksti. Heiða Ingólfsdóttir, varamarkvörður Stjörnunnar , varði vel. Stjarnan tók leikhlé í framhaldinu. Á þessum tímapunkti virtist sem  eitthvað gæfi eftir hjá Gróttunni, ekki síst í sóknarleiknum. Stjarnan náðu fljótlega sex marka forskoti, 21:15, þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Sjö mínútum fyrir leikslok var munurinn orðinn fjögur mörk og Grótta fékk tvö hraðaupphlaup í þeirri stöðu til að minnka muninn í þrjú mörk. Það tókst ekki og smátt og smátt fjaraði von Gróttuliðsins út. Það var að flestu leyti sjálfum  sér verst að þessu sinni. Það átti möguleika á að gera mikið betur.

Það verður hinsvegar ekki af Stjörnuliðinu tekið að það lék mun heilsteyptari leik en á þriðjudagkvöldið og verðskuldaði þennan sigur fyllilega.

Fylgst er með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is. 

Stjarnan 23:19 Grótta opna loka
60. mín. Stjarnan tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert