Útlit er fyrir að Arna Björk Almarsdóttir leiki ekki meira með Stjörnunni í úrslitakeppninni við Gróttu um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik. Arna Björk missteig sig illa í síðari hálfleik í öðrum leik liðanna í TM-höllinni í gærkvöldi og var borin af leikvelli.
Samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk í gærkvöldi var talið nær fullvíst að Arna Björk væri ekki ökklabrotin en aftur á móti að liðbönd í öðrum ökklanum væru að minnsta kosti tognuð. Hún var send til læknis til nánari skoðunar.
Arna Björk er þriðji leikmaður liðanna sem meiðist illa í leikjunum tveimur sem að baki eru á milli Stjörnunnar og Gróttu um Íslandsmeistaratitilinn. Laufey Ásta Guðmundsdóttir og Karólína Bæhrenz Lárudóttir meiddur í fyrstu viðureign liðanna á þriðjudagskvöldið og taka ekki meira þátt í þeim leikjum sem eftir eru. Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, staðfesti það við mbl.is eftir leikinn í TM-höllinni í gærkvöldi sem Stjarnan vann, 23:19, jafnaði þar með metin í viðureign liðanna um Íslandsmeistaratitilinn. Liðin hafa unnið einn leik hvort.