Stjarnan jafnaði metin í úrslitarimmunni við Gróttu um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna í gærkvöldi með afgerandi sigri, 23:19, í öðrum leik liðanna í TM-höllinni í Garðabæ.
Stjarnan hafði sex marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 15:9, og leyfði leikmönnum Gróttu ekki að minnka muninn nema niður í þrjú mörk þegar best lét í síðari hálfleik. Hvort lið hefur hlotið einn vinning í kapphlaupinu um Íslandsmeistaratitilinn og mætast á nýjan á leik á sunnudaginn á Seltjarnarnesi.
Góður markvörður er nánast gulls ígildi fyrir hvert handknattleikslið og afgerandi sóknarmaður sem getur breytt leikjum nánast upp á eigin spýtur er einnig mikils virði. Þessir tveir leikmenn voru innanborðs í Stjörnuliðinu þegar það mætti til leiks í gærkvöldi. Landsliðsmarkvörðurinn Florentina Stanciu varði hvað eftir annað frá leikmönnum Gróttu í opnum færum og braut niður sjálfstraust nokkurra leikmanna þegar á leikinn leið.
Sjá allt um úrslitaeinvígi Stjörnunnar og Gróttu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag