Viljum kvitta fyrir síðasta leik

Sólveig Lára Kjærnested með boltann. Guðrún Erla Bjarnadóttir, Stjörnunni á …
Sólveig Lára Kjærnested með boltann. Guðrún Erla Bjarnadóttir, Stjörnunni á bak við hana og Eva Björg Davíðsdóttir úr Gróttu reynir að verjast. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Það er allt undir hjá Sólveigu Láru Kjærnested og félögum í Stjörnunni sem mætir Gróttu í kvöld í fjórða leik liðanna í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna. Staðan er 2:1 fyrir Gróttu en liðin mætast í Garðabæ kl. 19.30.

„Það var ansi margt sem vantaði í síðasta leik, nánast allt. Það var mjög léleg frammistaða af okkar hálfu og sóknin var náttúrlega langt frá því að vera nógu góð. Það vantaði upp á varnarleikinn og sömuleiðis markvörslu hluta leiksins,“ sagði Sólveig við mbl.is aðspurð um það hvað hefði mátt betur fara.

Aðeins fjórir leikmenn skoruðu mark fyrir Stjörnuna sem tapaði leiknum 22:18 en Sólveig skoraði ellefu mörk af þeim.

„Það er allt of lítið, okkur hefur alltaf gengið best þegar markaskorun hefur verið að dreifast á marga leikmenn. Við erum bara þannig lið að við þurfum framlag frá öllum. Það voru ekki allir á pari í síðasta leik,“ sagði Sólveig.

Sólveig segir mun meira í Stjörnuliðið spunnið heldur en það sýndi í síðasta leik og það vilji leikmenn liðsins sanna fyrir fólki í kvöld.

„Við viljim kvitta fyrir síðasta leik og sýn að við erum betri í handbolta en þetta. Við erum virkilega ósáttar við spilamennsku okkar síðast og við hlökkum bara til að að geta kvittað fyrir það,“ sagði Sólveig Lára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert