Gott að losna við Þýskaland

Björgvin Páll Gústavsson fagnar með Róberti Gunnarssyni og Guðjóni Val …
Björgvin Páll Gústavsson fagnar með Róberti Gunnarssyni og Guðjóni Val Sigurðssyni. mbl.is/Golli

„Ég var bara nokkuð sáttur með þetta, sérstaklega að hafa losnað við C-riðilinn,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik, eftir að ljóst var hverjir yrðu mótherjar Íslands í lokakeppni EM sem fram fer í Póllandi í janúar á næsta ári.

Dregið var í riðla í hádeginu og er Ísland í B-riðli með Króatíu, Hvíta-Rússlandi og Noregi.

„Þetta er svo sterkt mót að það er erfitt að tala um einhverja óskamótherja en það er fínt að fá lið eins og Noreg sem við þekkjum vel og höfum oft spilað skemmtilega leiki á móti. Þetta eru samt allt lið sem við þekkjum vel og við vitum alveg hvað við erum að fara út í,“ sagði Björgvin. Króatía var í efsta styrkleikaflokki fyrir dráttinn, ásamt Frakklandi, Danmörku og Spáni:

„Króatar eru það lið sem ætti að vinna riðilinn fyrir fram og við höfum lent í miklum vandræðum með þá í gegnum tíðina. Það væri gaman að breyta því í þetta skiptið. Við höfum verið í einna mestum vandræðum með Króata af þessum liðum í efsta styrkleikaflokki, en það skipti meira máli hvaða lið kom upp úr þriðja styrkleikaflokki. Þar vorum við ekkert heppnir, mætum Hvíta-Rússlandi, en losnuðum við Þýskaland sem var besta þjóðin í þeim flokki,“ sagði Björgvin. Noregur kom svo úr neðsta styrkleikaflokknum:

Reinkind með nýtt blóð í Norðmenn

„Norðmenn eru með rosalega ungt og gott lið. Harald Reinkind úr Rhein-Neckar Löwen virðist vera að koma með nýtt blóð í liðið og þeir virðast á uppleið,“ sagði Björgvin.

„Það er gaman að fá smákitl í magann núna og velta þessu fyrir sér en það er auðvitað langt í mót. Við verðum að spila þarna í nágrenni Kraká, í bæ sem ég hef aldrei heyrt um, og það verður gaman að koma þangað. Við viljum gera góða hluti á EM, fyrir okkur og þjóðina, og hefðum auðvitað viljað gera betur á HM í Katar. Það er góður stígandi í liðinu og nýir strákar að stíga upp, og vonandi náum við halda áfram á uppleið fram í mótið,“ sagði Björgvin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert