Fimmti sigur Fram í röð

Ragnheiður Júlíusdóttir á skot að marki Stjörnunnar í kvöld.
Ragnheiður Júlíusdóttir á skot að marki Stjörnunnar í kvöld. mbl.is/Eva Björk

Fram vann fimmta sigur sinn í röð í Olís-deild kvenna í handknattleik í kvöld þegar liðið lagði Stjörnuna, 29:25, á heimavelli sínum í Safamýri. Fram var með yfirhöndina í leiknum svo að segja frá byrjun  og var fimm mörkum yfir í hálfleik, 18:13, og náði mest sjö marka forskoti oftar en einu sinni í síðari hálfleik.

Fram er áfram í þriðja sæti deildarinnar, nú með 13 stig eftir átta leiki. Stjarnan er um miðja deild með átta stig eftir átta leiki.

Það var aðeins rétt í byrjun sem Stjarnan hélt í við Fram-liðið í fyrri hálfleik. Sóknarleikur Fram-liðsins var markvissari þar sem vel gekk að opna skotleiðir fyrir Ragnheiði Júlíusdóttur auk þess sem Sigurbjörg Jóhannsdóttir og Hildur Þorgeirsdóttir fundu Elísabetu Gunnarsdóttur á línunni hvað eftir annað. Varnarleikur Fram var einnig betri en Stjörnuliðsins en mestu munaði um stórleik Guðrúnar Óskar Maríasdóttur í markinu. Hún varði 13 skot í fyrri hálfleik á meðan Florentina Stanciu og Heiða Ingólfsdóttir vörðu 5 skot í marki Stjörnunnar.

Fram var með verðskuldað fimm marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 18:13.

Fram skoraði tvö fyrstu mörk síðari hálfleiks og leiðir virtust ætla að skilja endanlega milli liðanna. Kippur hljóp hinsvegar í Stjörnuliðið, ekki síst í vörn auk þess sem Florentina tók að verja. Þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var munurinn kominn niður í fjögur mörk, 21:17. Framliðið bætti í á nýjan leik og var sex mörkum yfir, 23:17, þegar síðari hálfleikur var hálfnaður.

Stjarnan minnkað mun inn í tvö mörk, 24:22, þegar 12 mínútur lífðu leiks. Fram-liðið hélt í horfinu og Stjarnan náði aldrei að komast nær gestgjöfum sínum en sem nam tveimur mörkum.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Fram 29:25 Stjarnan opna loka
60. mín. Florentina Stanciu (Stjarnan) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert