Ísland tapaði fyrir Portúgal í fyrri vináttulandsleik þjóðanna í handknattleik, en leikið var í Kaplakrika í Hafnarfirði. Ísland var einu marki yfir í hálfleik en Portúgal fór að lokum með fjögurra marka sigur af hólmi, 32:28. Þjóðirnar mætast á ný á sama stað annað kvöld.
Ísland tefldi fram sínu sterkasta liði og náði snemma frumkvæðinu, en átti í erfiðleikum með að hrista þá Portúgölsku af sér. Jafnt var á flestum tölum framan af fyrri hálfleiknum þar sem gestirnir jöfnuðu jafnharðan og Ísland komst yfir, en þegar rúmar sjö mínútur voru til leikhlés náði Ísland þriggja marka forystu, 13:10.
Portúgalar tóku þó leikhlé sem skilaði sínu, en þeir skoruðu þrjú mörk í röð og jöfnuðu metin enn á ný. Eftir íslenskt leikhlé náðu strákarnir hins vegar áttum á ný, en þegar flautað var til leikhlés munaði einu marki á liðunum. Staðan 17:16 í hálfleik.
Portúgalar mættu gríðarlega ákveðnir til leiks eftir hlé. Það tók þá aðeins fimm mínútur að komast yfir í fyrsta sinn í leiknum, og þeir hömruðu járnið meðan það er heitt og komust í 20:18. Það tók íslenska liðið nokkra stund að ná frumkvæðinu á ný, en þeir komust loks yfir 23:22 eftir að hafa síðast verið með forskot í stöðunni 18:17.
Það dugði hins vegar skammt, því Portúgalar voru hvergi nærri hættir. Þegar tæpar tíu mínútur voru eftir skoruðu þeir fjögur mörk í röð og komust fjórum mörkum yfir, 28:24, og í fyrsta sinn í leiknum sem munurinn var svo mikill.
Íslensku leikmennirnir voru hins vegar ákveðnir í að snúa blaðinu sér í vil en gestirnir voru öflugir og létu engan bilbug á sér finna. Þeir héldu forskotinu allt til enda og þegar flautað var til leiksloka munaði fjórum mörkum á liðunum. Lokatölur 32:28 fyrir Portúgal.
Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur hjá Íslandi með sjö mörk, þar af fjögur úr vítum. Björgvin Páll Gústavsson varði sextán skot í markinu.
Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun. Viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld.