Þýska meistaraliðið Kiel vill kaupa Aron Pálmarsson frá ungverska liðinu Veszprém. Kiel hefur m.a. lagt fram kauptilboð upp á 3 milljónir evra. Þetta hefur mbl.is samkvæmt öruggum heimildum. Forráðamenn Veszprém hafa neitað tilboði Kiel en samkvæmt heimildum hafa stjórnendur Kiel endurnýjað tilboð sitt með hærri upphæð. Þar af leiðandi er boltinn staddur hjá Ungverjunum.
Ef samkomulag næst vill Kiel frá Aron til sín áður en keppni hefst aftur í þýsku 1. deildinni að loknu Evrópumeistaramótinu í handknattleik í Póllandi.
Verði af kaupunum er ljóst að um metupphæð verður að ræða. Núverandi met eru tvær milljónir evra en þá upphæð greiddi franska liðið PSG fyrir Nikola Karabatic frá Barcelona á síðasta sumri. Karabatic átti þá eitt ár eftir af samningi sínum við Barcelona.
„Ég kem af fjöllum en ég hef lengi vitað af áhuga Kiel," sagði Aron í samtali við mbl.is fyrir stundu.
Aron er samningsbundinn Veszprém til ársins 2018. Hann kom til félagsins í sumar sem leið frá Kiel.