Dreymdi ekki gullverðlaunin í nótt

Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari þýska landsliðsins í handknattleik, fagnar sigri liðsins …
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari þýska landsliðsins í handknattleik, fagnar sigri liðsins gegn Rússum á EM 2016 ásamt Carsten Lichtlein, markverði þýska liðsins. AFP

Þeir voru á botninum eftir að hafa misst af sæti á EM árið 2014 og HM 2015 og þurftu nýjan þjálfara eftir að sæti á HM á Katar árið 2015 var fært upp í hendurnar á þeim. Þeir aðilar innan þýska handknattleikssambandsins sem vildu Dag Sigurðsson urðu ofan á það reyndist happafengur. 

Svona hefst pistill Bjorns Pazens sem birtist á vef mótsins, pol2016.ehf-euro.com, í dag.

Dagur Sigurðsson var ráðinn þjálfari þýska landsliðsins sumarið 2014 og stýrði sínum fyrsta landsleik í september sama ár. Dagur hafði áður náð besta árangri sem austurríska landsliðið hafði nokkurn tímann náð þegar hann stýrði liðinu á heimavelli á EM 2010. 

Plazen minnir svo á það í pistli sínum að þegar Dagur var ráðinn landsliðsþjálfari þýska liðsins hafi margir handboltaspekingar rekið upp stór augu og menn innan þýsku handknattleikshreyfingarinnar vildu margir hverjir sjá Þjóðverja stýra liðinu. 

„Dagur hófst fljótlega handa við að yngja liðið og kynnti til leiks unga og efnilega leikmenn sem höfðu gert það gott með yngri landsliðum Þjóðverja. Þýskaland lenti í sjöunda sæti á HM í Katar árið 2015 með ungt, efnilegt og spennandi lið. Á þessum tímapunkti voru gagnrýnisraddirnar þagnaðar,“ rekur Plazen í pistli sínum.  

Það var Bob Hanning, aðstoðarforseti þýska handknattleikssambandsins, sem sótti það harðast að Dagur fengi starfið þegar leitin að nýjum landsliðsþjálfara stóð yfir árið 2014, en Hanning þekkti til verka Dags sem þjálfari. 

„Við hittumst fyrst árið 2000 þegar það stóð til að Dagur yrði lærisveinn minn. Leiknum var hins vegar aflýst og Dagur hélt á vit ævintýranna til Japan,“ sagði Hanning  í samtali við Plazen um fyrstu kynni hans af Degi.

Þegar Hanning var að leita að þjálfara hjá Füchse Berlin árið 2009 kom Dagur upp í huga Hanning.

„Við vissum nákvæmlega hvers konar þjálfar við vildum, einhvern sem væri reiðubúinn til þess að vinna með ungum leikmönnum. Þjálfara með sigurhugarfar og þekkingu og reynslu sem leikstjórnandi,“ sagði Hanning um aðdragandann að ráðningu Dags hjá Füchse Berlin.

Hanning flaug svo til Reykjavíkur árið 2014 og vissi það þá þegar á leiðinni frá flugvellinum að heimili Dags Sigurðssonar sem var fundarstaður þeirra að Dagur væri rétti maðurinn í starf landsliðsþjálfara Þýskalands. 

Dagur sem lék 215 landsleiki fyrir Íslands hönd hafði fært Füchse Berlin fyrstu titlana í sögu félagsin árið 2014 þegar liðið bar sigur býtum í þýsku bikarkeppninni. Síðasti leikur Dags við stjórnvölin hjá Füchse Berlin var svo þegar liðið vann Hamburg í úrslitleika EHF bikarsins árið 2015. 

„Núna er að ég undirbúa minn fyrsta úrslitaleik sem landsliðsþjálfari og það hljómar vel, er það ekki. Ég hef ekki breytt neinu í undirbúningi liðsins fyrir þennan leik. Ég fór snemma að sofa eins og ég er vanur og mig dreymdi ekki gullverðlaunin, enda dreymir mig vanalega ekki neitt,“ sagði Dagur rólegur í samtali við Plazen í gær. 

Dagur kemur iðulega fyrir á rólegan og yfirvegaðan máta. Hanning þekkir hins vegar aðra hlið á Degi.

„Dagur getur hagað sér eins og eldfjall, hann er með heilmikla orku og lætur vel í sér heyra ef hlutirnir ganga ekki fyrir sig eins og áætlað var. Dagur er þó yfirleitt rólegheitin uppmáluð og er taktískt fær þjálfari og afar góður í mannlegum samskiptum,“ segir Hanning þegar hann er beðinn um að lýsa Degi sem persónu. 

“Dagur er heimsklassa þjálfari og hefur brugðist frábærlega við öllum þeim meiðslum sem herjað hafa á liðið bæði fyrri mótið og á meðan mótinu hefur staðið. Dagur hefur ávallt fundið taktísk svör við vandræðunum og valið rétta kosti á mikilvægum augnablikum í leikjum liðsins,“ sagði Hanning um frammistöðu Dags á mótinu til þessa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert