Ísland dróst gegn Portúgal

Aron Pálmarsson og félagar hans í íslenska landsliðinu mæta Portúgal …
Aron Pálmarsson og félagar hans í íslenska landsliðinu mæta Portúgal í umspili um laust sæti á HM. Árni Sæberg

Dregið var í umspil um laust sæti á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla sem haldið verður í Frakklandi í janúar á næsta ári. Drátturinn fór fram í Kraká í Póllandi í hádeginu í dag.

Ísland var í efri styrkleikaflokki þegar dregið var eftir að hafa lent í 13. sæti á Evrópumótinu sem lýkur í dag með leiknum um þriðja sætið og síðan úrslitaleik mótstins. 

Ísland mætir Portúgal í tveimur leikjum næsta sumar, en leikið verður heima og heiman. Liðið sem hefur hefur betur í viðureigninni tryggir sér sæti á HM. Fyrri leikurinn verður á heimavelli einhvern tímann á tímabilinu 10. - 12. júní og seinni leikurinn ytra 14. - 16. júní. 

Ísland hefur tekið þátt í lokakeppni HM í síðustu þremur keppnum, en síðast var liðið ekki með eftir að hafa dottið út í umspili gegn Makedóníu fyrir HM í Króatíu árið 2009.

Ísland lenti í sjötta sæti á HM í Svíþjóð árið 2011, tólfta sæti á HM á Spáni árið 2013 og ellefta sæti á HM í Katar árið 2015.    

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert