Menn voru á bremsunni

Vignir Svavarsson í skotstöðu.
Vignir Svavarsson í skotstöðu. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er fyrsti stóri titil félagsins og þar af leiðandi stór áfangi,“ sagði Vignir Svavarsson, landsliðsmaður í handknattleik, sem varð danskur bikarmeistari með Midtjylland á sunnudaginn eftir sigur á GOG í úrslitaleik í Árósum, 30:26.

„Menn eru eðlilega í sjöunda himni og ljóst að þessi titill hjálpar félaginu mikið við að halda áfram að koma undir sig fótunum auk þess sem það verður gaman að komast í Evrópukeppni á næsta keppnistímabili,“ sagði Vignir ennfremur en Midtjylland kom upp í úrvalsdeild vorið 2014 í fyrsta skipti.

Eftir góðan árangur í deildinni í fyrra hefur árangur Midtjylland ekki verið eins góður í deildinni á þessari leiktíð og sem stendur situr liðið í 11. sæti af 14 liðum deildarinnar.

„Sigurinn í bikarkeppninni er enn sætari af því að okkur hefur ekki vegnað sem skyldi til þessa. Framundan er hinsvegar lokatörnin í deildinni. Ég held að við verðum nánast að vinna alla leikina sem eftir eru til þess að komast í úrslitakeppni átta efstu liðanna um Danmerkurmeistaratitilinn,“ sagði Haukamaðurinn baráttuglaði.

Þrátt fyrir mikla ánægju yfir fyrsta titilinum var hátíðarhöldum slegið á frest. Þau verða tekin út síðar að sögn Vignis. „Við eigum leik í deildinni annað kvöld [miðvikudagskvöld] og því var farið rólega í fögnuði yfir sigrinum. Menn voru á bremsunni. Við verðum að einbeita okkur að handboltanum til að komast í úrslitakeppnina,“ segir Vignir sem vonast til að sigurinn í bikarkeppninni gefi liðinu byr undir báða vængi.

Nánar er rætt við Vigni í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. Þar kemur Vignir m.a. í framhald sitt með íslenska landsliðinu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert