Línumaðurinn Atli Ævar Ingólfsson hefur átt góðu gengi að fagna með liði Sävehof í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik á tímabilinu.
Atli Ævar hefur skorað 85 mörk í 23 leikjum og er eins og staðan er í dag í liði ársins í netkosningu hjá sænska handknattleikssambandinu.
Atli Ævar, sem er 28 ára gamall og á að baki sex A-landsleiki, gekk í raðir Sävehof í maí á síðasta ári og samdi við félagið til tveggja ára. Hann lék áður með sænska liðinu Guif en þar áður spilaði hann í Danmörku, fyrst með SönderjyskE og síðan Nordsjælland.
Atli og félagar eru í 3.-4. sæti í sænsku úrvalsdeildinni með 30 stig en Ólafur Andrés Guðmundsson og samherjar hans í Kristianstad tróna í toppsætinu með 46 stig.