„Ég vonast til þess. Það er á vinnuáætlun okkar,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson, formaður Handknattleiksambands Íslands, spurður hvort von væri til þess að landsliðsþjálfari verði tekinn til starfa þegar kemur að tveimur vináttlandsleikjum í handknattleik karla við Noreg í Þrándheimi 3. og 5. apríl.
Enn er þess beðið að eftirmaður Arons Kristjánssonar í stól landsliðsþjálfara karla í handknattleik verður ráðinn. Aron sagði starfi sínu lausu í lok janúar eftir að íslenska landsliðið lauk keppni á Evrópumeistaramótinu í Póllandi.
Norska handknattleikssambandið tilkynnti í morgun um leikina við tvo við Íslendinga. Leikirnir eru liður í undirbúningi norska landsliðsins fyrir forkeppni Ólympíuleikanna sem stendur yfir 8. – 10. apríl.
„Við urðum að taka ákvörðun um þessa leiki af eða á. Norðmenn eru að búa sig undir forkeppnina. Við veltum fyrir okkur hvort betra væri að hafa æfingaviku með liðinu í stað landsleikja. Þetta varð niðurstaðan, það að mæta Norðmönnum tvisvar sinnum,“ sagði Guðmundur. Reiknað er með að eftir leikina ytra verði íslenski landsliðshópurinn saman við æfingar með nýjum landsliðsþjálfara þar sem HSÍ hefur rétt á að vera með leikmenn í æfingabúðum fram til sunnudagsins 10. apríl.
Guðmundur sagði hinsvegar ekki séð fyrir endann á ráðningu á eftirmanni Arons. „Málið er enn í vinnslu. Ég vonast til þess að því verði lokið fyrir leikina í Noregi,“ var allt og sumt sem Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, hafði um ráðningu nýs landsliðsþjálfara að segja að svo stöddu.