Ísland á botninum eftir fyrri helminginn

Hildigunnur Einarsdóttir tekin föstum tökum í leiknum í kvöld.
Hildigunnur Einarsdóttir tekin föstum tökum í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Michael Heuberger

Ísland er neðst í sínum undanriðli fyrir Evrópumót kvenna í handbolta eftir eins marks tap gegn Sviss ytra í kvöld, 22:21, í jöfnum og spennandi leik.

Ísland er því enn án stiga eftir þrjár umferðir en þetta voru fyrstu stig Sviss. Frakkland er efst í riðlinum með 6 stig og Þýskaland er með 4 stig.

Ísland mætir Sviss að nýju í Schenkerhöllinni að Ásvöllum kl. 16.30 á sunnudaginn, og með því að vinna þann leik með meira en eins marks mun kemst liðið aftur upp í 3. sæti. Tvö efstu lið riðilsins fara í lokakeppni EM, og liðið með bestan árangur í 3. sæti í undanriðlunum sjö kemst einnig í lokakeppnina (í þeim samanburði telja aðeins úrslit gegn efstu tveimur liðum riðlanna).

Ísland var einu marki yfir í hálfleik í kvöld, 10:9, eftir að hafa mest náð þriggja marka forskoti, 8:5. Florentina Stanciu fór á kostum fyrir aftan góða vörn og varði 14 skot, þar af tvö víti. Á hinum enda vallarins átti Ísland hins vegar sömuleiðis erfitt með að skora framhjá Manuelu Brütsch, en þær Karen Knútsdóttir, Ramune Pekarskyte og Sólveig Lára Kjærnested skoruðu 3 mörk hver fyrir hálfleik áður en Þórey Anna Ásgeirsdóttir kom Íslandi í 10:9.

Sviss náði svo forystunni snemma í seinni hálfleik en leikurinn var áfram mjög jafn. Ísland tapaði boltanum of oft í sóknarleik sínum en stóð vörnina betur. Ramune Pekarskyte jafnaði metin í 19:19 þegar fimm mínútur lifðu leiks en Sviss skoraði tvö næstu mörk. Sviss náði svo aftur tveggja marka forskoti, 22:20, þegar rétt um hálf mínúta var eftir og þá voru úrslitin ráðin.

Ágúst Jóhannsson þjálfari var duglegur að dreifa álaginu á milli leikmanna og það gæti skilað sér í seinni leik þjóðanna, sem eins og áður segir er á sunnudaginn. Florentina varði 21 skot í leiknum og Karen Knútsdóttir var markahæst með 6 mörk, þar af 4 úr vítum. Sólveig Lára Kjærnested átti góðan leik og skoraði 5 mörk.

Sviss 22:21 Ísland opna loka
60. mín. Karen Knútsdóttir (Ísland) skorar úr víti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert