„Ég var eiginlega búinn að gleyma hinum leiknum þegar þetta var tilkynnt í hátalakerfinu þannig að þetta var hálf einkennilegt. Nú erum við búnir að tryggja okkur deildarmeistaratitilinn og getum einbeitt okkur að því að koma af fullum krafti í úrslitakeppnina,“ sagði Janus Daði Smárason, leikmaður Hauka eftir 36:28 sigur liðsins gegn Gróttu í Schencker-höllinnni í kvöld.
Sigur Hauka og jafntefli Vals gegn Víkingi þýðir að Haukar hafa sex stiga forskot á Val á toppi deildarinnar þegar þrjár umferðireru eftir. Þá hafa Haukar haft betur í innbyrðis viðureignum liðanna í vetur og deildarmeistaratitilinn því í höfn hjá Haukum.
„Við töpuðum stigi í síðasta leik og vorum samstíga í því að bæta upp fyrir það í þessum leik. Það styttist í úrslitakeppnina og mikilvægt að koma okkur á beinu brautina strax aftur. Næstu leikir skipta miklu máli í undirbúningi fyrir úrslitakeppnina,“ sagði Janus Daði um mikilvægi þess að leika vel í þessum leik og næstu leikjum.
„Það er mikil áskorun að ná að verða bæði deildar- og Íslandsmeistarar og það er alltaf erfiðara að verja Íslandsmeistaratitilinn en að vinna í fyrsta skiptið. Sagan er ekki á okkar bandi, en við erum staðráðnir í að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að fara alla leið og halda Íslandsmeistarabikarnum í okkar höndum,“ sagði Janus Daði um framhaldið hjá Haukum.