Haukar urðu deildarmeistarar í Olísdeild karla í handknattleik eftir að hafa unnið nokkuð þægilegan átta marka sigur gegn Gróttu í 24. umferð deildarinnar í Schenker-höllinni í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 36:28 Haukum í vil.
Haukar tróna á toppi deildarinnar, en liðið er með 41 stig eftir þennan sigur og hefur sex stiga forystu á Val sem situr í öðru sæti deildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir. Þá hafa Haukar haft betur í innbyrðis viðureignum liðanna í vetur og deildarmeistaratitillinn því í höfn hjá Haukum.
Grótta er aftur á móti með 22 stig í sjötta sæti deildarinnar og stendur í harðri baráttu um fjórða sæti deildarinnar sem veitir heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Grótta er tveimur stigum á eftir ÍBV sem situr í fjórða sæti deildarinnar, en Eyjamenn eiga leik til góðu á Gróttu.
Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks, en um miðbik fyrri hálfleiks náðu Haukar góðum kafla þar sem liðið skoraði fjögur mörk í röð. Haukar juku svo jafnt og þétt við forskotið og voru með níu marka forystu í hálfleik.
Heimir Óli Heimisson var markahæstur í liði Hauka með sex mörk, en Finnur Ingi Stefánsson var atkvæðamestur í liði gestanna af Seltjarnarnesinu með sjö mörk.
Haukar sem eru ríkjandi Íslandsmeistarar stefna nú á að vera fyrsta liðið síðan 2010 til þess að verða bæði deildar- og Íslandsmeistarar í karlaflokki í handknattleik. Það voru einmitt Haukar sem voru síðasta liðið til þess að vinna báða titlana á sama tímabili.