Hringnum lokað með þessum titli

Leikmenn Hauka fagna deildarmeistaratitlinum í kvöld.
Leikmenn Hauka fagna deildarmeistaratitlinum í kvöld. Eggert Jóhannesson

"Það er frábært að klára þetta þegar þrjár umferðir eru eftir. Þessi leikur endurspeglar veturinn að mínu mati. Við höfum leikið vel í allan vetur og deildarmeistaratitillinn ber vott um góða spilamennsku liðsins,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við mbl.is eftir að ljóst var að liðið varð orðið deildarmeistari í Olísdeild karla í handknattleik eftir 36:28 sigur gegn Gróttu í Schencker-höllinni í kvöld.  

„Við vorum ósáttir við spilamennskuna hjá okkur á móti FH og komum tvíefldir til leiks í þessum leik. Þannig hefur það verið í þau fáu skipti við sem við höfum misstígið okkur í vetur að við höfum komið sterkari til baka. Við hófum leikinn af miklum krafti og gerðum út um leikinn í fyrri hálfleik,“ sagði Gunnar um leikinn í kvöld.  

Gunnar hefur verið sigursæll undanfarin ár, en hann stýrði ÍBV til Íslandsmeistaratitils árið 2014. Eyjamenn urðu svo bikarmeistarar undir hans stjórn á síðustu leiktíð og nú hefur hann lokað hringnum með deildarmeistaratitli sem þjálfari Hauka.

"Við erum ákaflega stoltir af þessum titli, en vitum að framundan er nýtt mót þegar úrslitakeppnin hefst. Það er verkefni mitt að sjá til þess að liðið haldi dampi og verði klárt þegar að úrslitakeppninni kemur. Nú er ég búinn að loka hringnum með þessum titli og þá er bara að byrja upp á nýtt með Íslandsmeistaratitli," sagði Gunnar um framhaldið.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert