Vorum yfirspilaðir í fyrri hálfleik

Aron Valur Jóhannsson og Finnur Ing Stefánsson, leikmenn Gróttu, freista …
Aron Valur Jóhannsson og Finnur Ing Stefánsson, leikmenn Gróttu, freista þess að stöðva för Janusar Daða Smárasonar, leikmanns Hauka. Eggert Jóhannesson

Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu, fannst lið sitt vera skrefinu á eftir þegar Grótta laut í lægra haldi fyrir Haukum, 36:28, í 24. umferð Olísdeildar karla í Schencker-höllinni í kvöld. Haukar voru sterkari aðilinn í leiknum og Gunnari fannst leikmenn sínir eiga fá svör við góðri spilamennsku Hauka.

„Við vorum að spila á móti hörkuliði sem yfirspilaði okkur í fyrri hálfleik. Við áttum fá svör við þeirra leik og þetta var brött brekka þegar flautað var til hálfleiks. Við vorum níu mörkum undir í hálfleik og lítið annað að gera en að hysja upp um okkur buxurnar í seinni hálfleik og klára leikinn með sóma,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is eftir leikinn. 

„Við hefðum þurft að stýra hraðanum betur í leiknum og gerðum of mörg mistök. Síðan vorum við að klúðra dauðafærum sem gengur ekki ef við ætlum að vera inní leikjum á móti svona sterku liði,“ sagði Gunnar enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert