Alfreð Gíslason þjálfari Kiel og Dagur Sigurðsson þjálfari þýska landsliðsins í handknattleik fengu vondar fréttir í dag.
Christian Dissinger leikmaður Kiel meiddist illa á hné á æfingu þýska landsliðsins og þarf að gangast undir aðgerð. Ljóst er að hann spilar ekkert meira með Kiel á tímabilinu og verður ekki með Þjóðverjum á Ólympíuleikunum í Ríó í sumar.
Dissinger, sem er 26 ára gamall, lék ljómandi vel með Þjóðverjum undir stjórn Dags Sigurðssonar á Evrópumótinu í Póllandi í janúar þar sem Þjóðverjar hömpuðu óvænt Evrópumeistaratitlinum.