Florentina Stanciu, markvörður Stjörnunnar og íslenska landsliðsins var borin meidd af velli í viðureign Hauka og Stjörnunnar í kvöld.
Aðeins voru liðnar um 12 mínútur þegar Florentina féll til jarðar og virtist sárkvalin í hægra hnénu. Hún var síðan borin af velli og lék ekkert meira með í leiknum en Heiða Ingólfsdóttir lék í hennar stað í markinu og stóð sig vel.
„Ég veit á þessari stundu ekki hversu alvarlegt þetta er,“ sagði Halldór Harri Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar eftir leik.
„Hún er mikið kvalin í hnénu og fer í nánari skoðun á morgun. Við verðum bara að bíða og sjá til hvað kemur út úr þeirri læknisskoðun.“
Komi það í ljós að Florentina sé úr leik, er það gríðarlegt áfall fyrir Stjörnuna en Stanciu hefur verið einn besti markvörður deildarinnar um árabil. Stjarnan þarf svo sannarlega á markverðinum snjalla að halda en eftir 29:23 tap gegn Haukum, eru Stjörnukonur komnar upp við vegginn fræga og þurfa sigur í næsta leik.