Haukar eru komnir í úrslit á Íslandsmótinu í handknattleik karla eftir tveggja marka sigur, 30:28, á ÍBV í Vestmannaeyjum í dag í fjórða undanúrslitaleik liðanna. Haukar unnu rimmu liðanna með þremur vinningum gegn einum. Þeir voru lengst af yfir í þessum háspennuleik í Vestmannaeyjum sem leikinn var í gríðarlegri stemningu fyrir á annað þúsund áhorfendur.
Haukar voru yfir í hálfleik, 15:11. Þeir mæta annað hvort Aftureldingu eða Val í úrslitum en oddaleikur þeirra liða verður á þriðjudaginn.
Það sauð á keipum strax í byrjun leiksins. Stemningin var gríðarlega í salnum og taugar leikmanna voru þandar. Hávaðinn var gríðarlegur svo vart heyrðist mannsins mál. Leikmenn ÍBV byrjuðu betur. Þeir léku framliggjandi vörn sem Haukum gekk illa að finna leiðir framhjá.
Það var hinsvegar stutt í dramatíkina. Strax á sjöttu mínútu var Giedrius Morkunas vísað af leikvelli með rautt spjald. Hann fór fram á leikvöllinn til þess að ná boltanum í hraðaupphlaup ÍBV. Hann rakst aðeins utan í Theodór Sigurbjörnsson sem eftir lá og að því er virtist eftir högg á andlitið frá Morkunas. Höggið var óviljandi, hafi það átt sér stað, en Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dómarar voru vissir. Morkunas skyldi fá rauða spjaldið og koma ekki meira við sögu í leiknum.
Aðeins fjórum mínútum síðar varð lið Hauka fyrir öðru áfalli þegar Tjörvi Þorgeirsson meiddist á hné þegar hann hljóp aftur í vörnina til þessa að verjast hraðaupphlaupi ÍBV. Tjörvi tók á sig krók til þess að rekast ekki utan í Theodór. Við stefnubreytinguna gaf sig eitthvað í hné Tjörva með þeim afleiðingum að hann lá eftir. Skömmu síðar var hann borinn af leikvelli í sjúkrabörum.
Haukar voru eðlilega tíma að jafna sig eftir áföllin tvö. Upp úr miðjum hálfleiknum snéru þeir taflinu við. Vörnin var góð og skyttur Eyjamanna voru ekki með mið sín vel stillt. Þá varði Grétar Ari Guðjónsson vel í markinu en unglingalandsliðsmarkvörðurinn leysti Morkunas af þegar sá síðarnefndi fékk rauða spjaldið.
Haukar komust yfir í fyrsta sinn í leiknum, 8:7, eftir 20 mínútur. Þeir náðu stjórn á leiknum og héldu henni út hálfleikinn og voru með fjögurra marka forskot að honum loknum, 15:11.
Haukar gáfu hvergi eftir á upphafsmínútum síðari hálfleik. Þeir voru með fimm marka forskot, 20:15, eftir tíu mínútur eftir að hafa mest náð sex marka forskot, 19:13. Varnarleikur ÍBV var ekki góður og þá var markvarslan lítið sem engin. Eyjamenn bitu frá sér og minnkuðu muninn í tvö mörk, 20:18. Á þeim kafla varði Kolbeinn Arnarsson, markvörður þeirra, tvö vítaköst með skömmu millibili frá Hákoni Daða Styrmissyni, Haukamanni.
Haukar rykktu frá á ný, ekki síst vegna stórleiks Elíasar Más Halldórsson. Hann fór á kostum í sóknarleik Hauka allan leikinn en blómstraði í síðari hálfleik þegar ÍBV færðu sig enn framar í vörninni. Haukar náðu sex marka forskoti, 27:21.
Eyjamenn bitu frá sér á lokamínútunum. Þeir léku maður á mann og minnkuðu muninn í tvö mörk, 28:26 og 29:27. Leikmenn ÍBV fengu möguleika á að jafna á síðustu sekúndum leiksins í 29:29, en tókst ekki og Eyjamaðurinn í liði Hauka, Hákon Daði Styrmisson, skoraði sigurmark Hauka á síðustu sekúndu leiksins.