Haukar meistarar annað árið í röð

Haukar eru Íslandsmeistarar karla í handknattleik annað árið í röð. Haukar og Afturelding mættust í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Schenker-höllinni á Ásvöllum og þar höfðu Haukar betur 34:31. 

Hvort lið hafði unnið tvo leiki í þessari rimmu og því var leikið til úrslita í kvöld. Haukar áttu heimaleikjaréttinn eftir að hafa hafnað í efsta sæti í deildakeppninni í vetur. 

Haukar náðu frumkvæðinu strax í fyrri hálfleik og höfðu fjögurra marka forskot að honum loknum 15:11. Í síðari hálfleik gengu Haukar á lagið og náðu mest níu marka forskoti. Það var hins vegar ekki nóg til að brjóta baráttuglaða Mosfellinga sem reyndu eins og þeir gátu. Minnkuðu muninn niður í þriggja marka mun á lokakaflanum en komust ekki lengra. Davíð Svansson lokaði þá markinu um tíma og Afturelding skoraði hvert markið á fætur öðru úr hröðum sóknum. Myndaðist þá smá spenna en þessi kippur kom of seint fyrir Mosfellinga. 

Hákon Daði Styrmisson var enn einu sinni atkvæðamikill hjá Haukum og skoraði 10/2 mörk. Adam Haukur Baumruk skoraði 7 og Elías Már Halldórsson 6. Árni Bragi var markahæstur hjá Aftureldingu eins og oft áður með 8/2 mörk Pétur Júníusson og Mikk Pinnonen gerðu 4 mörk hvor. 

Liðin mættust einnig í úrslitum Íslandsmótsins í fyrra en þá unnu Haukar 3:0 sigur í úrslitarimmunni.  Haukar slógu ÍBV út í undanúrslitum en Afturelding vann þá Val. 

Haukar 34:31 Afturelding opna loka
64. mín. Haukar tekur leikhlé Haukar taka leikhlé. Nú þurfa þeir aðallega vera skynsamir og ljúka sóknum sínum ekki of snemma. Afturelding tekur ýmist einn eða tvo úr umferð þessar mínúturnar. Slíkt á að gefa af sér góð færi ef menn eru klókir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka